5. september 2004

Að festast í fjötrum hversdagsleikans

Þegar við erum ung höfum við oft háleitar hugmyndir um það hvernig lífið verður þegar við verðum eldri en raunin er að hjá flestum okkar munum við vinna frá 9 til 5 í vinnu sem okkur líkar kannski ekkert sérstaklega við með laun sem varla duga fyrir framfærslu út mánuðinn. Stúlkur hugsuðu með sér að þær verði fyrirsætur eða flugfreyjur, ferðist mikið, verði dáðar fyrir fegurðina og fái skarpgripi fyrir milljónir. Strákarnir hugsa með sér að þeir muni keyra um á dýrindisbílum í flottustu fötunum, stæltir og flottir, og með milljónir inná bankareikning. En raunin er að flestar stúlkurnar verða annaðhvort heima vinnandi húsmæður með að minnsta kosti tvo krakka, eða í láglauna starfi meðan krakkinn er í leikskólanum. Strákarnir safna flestir skuldum og láta sig dreyma um nýja bíla og flottar konur þar til þeir drepast.

Og flestir eru fastir í vinnu sem þeim líkar ekki við, fastir í rútínu sem löngu varð leiðinleg. Og hvað gerum við? Jú við reynum að brjóta upp þessa með einhverjum hætti. Við kaupum eitthvað nýtt til að breyta þessu “leiðinlega” umhverfi sem við erum alltaf í. Við skiptum um maka vegna þess að við höldum að eitthvað sé að makanum. Við förum í ræktina, förum ekki í ræktina, drekkum okkur full eða hættum að drekka. Allt til þess að festast ekki í fjötrum hversdagsleikans.

“En bölsýnt!” gæti einhver sagt. Já það getur verið, en er ekki eitthvað til í þessu? En hver er það sem gefur okkur þessi skilaboð? Nánast allir allsstaðar. Í auglýsingum er okkur sýnt hamingjusamt fólk sitja í nýjum bíl, “ohh ef ég gæti bara losað mig við bíldrusluna og keypt mér svona bíl yrði allt svo auðveldara.” Við sjáum grannt og stælt brosandi fólk og hugsum með okkur “hvers vegna get ég ekki verið svona?” Við erum alltaf að fá skilaboð frá kapítalistanum um að okkur “vanti” hitt og þetta. Að við þurfum endalaust að vera að kaupa okkur ný föt, jafnvel þótt ekkert sé að þeim gömlu. Það er reynt að gera okkur háð sykri frá ungaaldri, vissuð þið að ungbarnamauk er fullt af hvítum sykri? Já, þeir byrja snemma og svífast einskis. Það virðist allt ganga út á að græða meira, eignast meira, meira og meira, það eru kjörorð okkar tíma.

En hvers vegna erum við alltaf að kenna kapítalistanum um þetta? Höfum við ekki val? Erum við ekki hugsandi skapandi verur sem geta valið eða hafnað? Við sitjum of oft og gagnrýnum hitt og þetta, orð hreyfa við engu nema lofti. Ef við viljum breyta einhverju, þá fræðum við hvort annað og sniðgöngum það sem ekki er rétt. En hvað gerum við þá til þess að festast ekki í fjötrum hversdagsleikans? Því getur engin svarað nema þú. En margir meistarar hafa komið með hugmyndir, eins og standa á því sem þú trúir, sama hvaða mótleiti þú færð. Aðrir biðja þig að hjálpa hvorum öðrum, læra gjafmildi, trúa á sjálfan sig, og þar eftir grösunum. En munum, að sama hvað er gert og sama hvað gerist, þá getum við aðeins tekið ábyrgð á okkar eigin gjörðum, og það sem við gerum, skapar þá mannveru sem við erum að móta.

Lokað er fyrir ummæli.